Kolbeinn Höður Gunnarsson, FH, og Ívar Kristinn Jasonarson, ÍR, háðu mikla baráttu í 200 metra hlaupi karla á Meistaramóti Íslands innanhúss í dag.
Þessir miklu keppinautar þurftu að deila Íslandsmeistaratitlinum í 400 metra hlaupi í gær þegar þeir komu í mark á sama tíma, en í dag kom Kolbeinn Höður einum hundraðasta á undan í mark í 200 metrunum.
Norðanmaðurinn sem keppir nú fyrir FH hljóp 200 metrana á 21,83 sekúndum og fékk gullverðlaun en Ívar Kristinn kom í mark á 21,84 sekúndum og fékk silfur.
Ari Bragi Kárason úr FH varð þriðji en hann hljóp á 22,17 sekúndum.

