
Ýmis gjöld hafa einnig hækkað milli ára. Árgjöld debetkorta hafa hækkað milli ára hjá öllum bönkunum og eru þau lægst hjá Landsbankanum. Ódýrast virðist jafnframt að nota debetkort hjá Landsbankanum. Ódýrast virðist hins vegar vera að nota VISA-kreditkort frá Arion banka, en MasterCard frá Landsbankanum.
Sjá einnig:Fyrir hvað er bankinn að rukka þig?
Þó ber að hafa í huga að hjá öllum bönkunum fá viðskiptavinir með vildarkjör afslátt af árgjaldi og fríar debetkortafærslur upp að ákveðnum fjölda. Samanburður milli bankanna er auk þess ekki alltaf einfaldur þar sem nöfn og skilmálar geta verið ólíkir fyrir svipaða þjónustu.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir brýnt að neytendur fylgist vel með gjöldum bankanna og sýni þeim aðhald. „Bankarnir eru með þessar upplýsingar inni á sínum heimasíðum, þannig að þeir neytendur sem vilja skoða þetta þeir geta það. Þessi gjöld eru mjög fjölþætt. Að sjálfsögðu eiga neytendur að fylgjast vel með þessu,“ segir Jóhannes.

„Ef að neytanda blöskra gjöldin, þá er ekkert að því að þeir hreinlega mótmæli. Til dæmis þegar verið er að taka upp ný gjöld geta þeir mótmælt formlega með því að senda sínum viðskiptabanka bréf. Þannig gætu neytendur sýnt aðhald. Á fákeppnismarkaði er enn frekari þörf á að sýna það," segir Jóhannes Gunnarsson.
Uppfært 04.03: Í fyrri útgáfu af þessari frétt stóð að úttekt í hraðbanka Íslandsbanka fyrir aðra en viðskiptavini bankans kostaði 375 krónur, hið rétta er að það er 165 krónur. Þetta hefur nú verið leiðrétt.