Þúsundir barna eru föst við landamæri á Balkanskaganum, nánar tiltekið í grennd við Makedóníu og Grikkland, að því er UNICEF greinir frá.
Samtökin vara við því að eftir því sem landamæri eru lokaðri, því meiri hætta sé á því að mansalar misnoti varnarleysi barna á flótta. Þá verði að tryggja öruggt umhverfi og koma fylgdarlausum börnum fyrir í tímabundið fóstur eða áþekk úrræði.
Nú séu börn tilneydd að sofa undir berum himni, þau hafi ekki aðgang að baðvatni og mat eða nauðsynlegri þjónustu.
Öruggt umhverfi, þar sem fylgdarlausum börnum er komið fyrir í tímabundið fóstur eða önnur slík úrræði á meðan unnið er úr beiðnum þeirra um hæli, sé ekki tryggt.
„Ég sé börn yngri en fimm ára föst á milli staða, þau komast ekki áfram og geta ekki farið til baka. Þau þurfa skjól og hvíld og að vita hvað er framundan,“ segir Jesper Jensen aðgerðastjóri UNICEF í Gevgelija.
UNICEF minnir á ákall sitt um að Evrópa setji þegar í stað í gagnið áætlun fyrir fylgdarlaus og týnd börn, áætlun sem þarf að ná til fjölskyldusameiningar, móttöku og flutninga kvótaflóttamanna, og hvað annað sem þarf til að vernda börn og tryggja að þau verði ekki fórnarlömb smyglara og mansals.
Börn á flótta í hættu við lokuð landamæri í Evrópu
Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
