Ríkissáttasemjari lagði í dag fram miðlunartillögu í kjaradeilu verkalýðsfélaga í álverinu í Straumsvík og ISAL. Hann telur ljóst að frekari sáttaumleitanir muni ekki bera árangur. Því hefur sáttasemjari lagt fram tillögu til lausnar málsins.
Kjarasamningur aðila rann út þann 31. desember 2014. Síðan deilunni var vísað til ríkissáttasemjara, 15. apríl 2015, hafa verið haldnir 39 sáttafundir. Tvisvar sinnum hefur allsherjarverkfall verið boðað en hætt var við þau í bæði skiptin. Þá var um tíma yfirvinnubann í gildi og yfirstandandi er ótímabundin vinnustöðvun á útflutningi á áli.
„Ljóst er að kjaradeilan hefur nú þegar valdið fyrirtækinu sem og starfsmönnum þess miklu tjóni og því brýnt að leitað sé allra leiða til lausnar henni. Því leggur ríkissáttasemjari tillöguna fram í samræmi við skyldur sínar til að miðla málum,“ segir í tilkynningu frá ríkissáttasemjara.
Tillaga sáttasemjara verður lögð fyrir félagsmenn verkalýðsfélaganna og fyrirtækið til atkvæðagreiðslu. Henni á að ljúka klukkan 16:00 þann 11. apríl.
Í tilkynningunni segir að verði tillagan samþykkt lýsa deiluaðilar því yfir að ágreiningi verði lokið. Yfirstandandi vinnustöðvun verður frestað þar til atkvæðagreiðslunni verðu lokið. Þá skuldbindur fyrirtækið sig til að draga málshöfðun vegna lögbanna til baka, verði tillagan samþykkt.
Um er að ræða verkalýðsfélögin Hlíf, VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Rafiðnaðarsamband Íslands vegna Félags íslenskra rafvirkja og Félags rafeindavirkja, FIT Félag iðn- og tæknigreina, VR og MATVÍS. Hins vegar eru Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Rio Tinto Alcan, eða ISAL.
„Samkomulag hefur náðst á milli samningsaðila um öll meginatriði samningsins að undanskildu því hversu langt heimildir til verktöku á svæðinu skuli ná, en miðlun sáttasemjara nær m.a. til þess ágreinings. Í samræmi við lög um stéttarfélög og vinnudeilur verður tillagan efnislega ekki kynnt öðrum en starfsmönnum og fyrirtækinu, fyrr en hún hefur verið samþykkt.“
Ríkissáttasemjari leggur fram miðlunartillögu í ISAL deilunni
Samúel Karl Ólason skrifar

Mest lesið

Fyrsta íslenska grænkera ostagerðin í hættu
Viðskipti innlent

Eyþór hættur sem framkvæmdastjóri Hopp
Viðskipti innlent


Svona munu stækkuð Skógarböð og hótel líta út
Viðskipti innlent

Hagnaðist um tæpar sjötíu milljónir króna
Viðskipti innlent

Skrautleg saga laganna hans Bubba
Viðskipti innlent

Sætta sig ekki við höfnun Kviku
Viðskipti innlent

Sorglegt að þurfa að hætta rekstri eftir 38 ár í Hveragerði
Viðskipti innlent

Starbucks opnaði á Laugavegi í dag
Viðskipti innlent

Lofar bongóblíðu við langþráð langborð
Viðskipti innlent