Veiði

Mikil tilhlökkun eftir opnun Þingvallavatns

Karl Lúðvíksson skrifar
Tómas Zahniser hjá Veiðihorninu með stórann urriða úr Þingvallavatni
Tómas Zahniser hjá Veiðihorninu með stórann urriða úr Þingvallavatni
Veiði hefst í Þingvallavatni 20. apríl og er mikil tilhlökkun meðal veiðimanna fyrir því að renna færi í vatnið.

Það var ansi kalt við vatnið síðasta vor og hafði það mikil áhrif á veiðina fyrstu dagana.  Nú er staðan þannig að það er mun minni ís við bakkana en í fyrra og það stefnir í að skilyrðin til veiða við opnun verði því afbrags góð.  Þeir sem sækja mest í vatnið í byrjun og fram í síðla hluta maí mánaðar eru þeir sem eru að eltast við urriðann í vatninu sem eins og þekkt er orðið nær oft hrikalegum stærðum.

Það svæði sem er af flestum talið eitt besta veiðisvæðið við vatnið er svæðið kennt við ION hótelið en Jóhann Hafnfjörð Rafnson er leigutakinn á því svæði.  Staðan er hins vegar þannig að öll veiðileyfi eru uppseld á svæðinu á þessu ári og það komast mun færri að en vilja.  Þarna má sjá urriðana í torfum stutt frá landi ásamt því að mikið veiðist af bleikju.

Það verður spennandi að fylgjast með því þegar veiðin hefst í vatninu og fyrstu fréttir af aflabrögðum berast.  Þess má geta að vinsælasta veiðivatn borgarbúa, Elliðavatn, opnar 21. apríl og það er klárt að það bíða líka margir eftir þeirri opnun.






×