Erlent

Fjármálaeftirlit rannsakar banka vegna stofnunar aflandsfélaga

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Nordea-bankinn er sagður hafa aðstoðað ríka viðskiptavini við að stofna aflandsfélög.
Nordea-bankinn er sagður hafa aðstoðað ríka viðskiptavini við að stofna aflandsfélög.
Upplýsingarnar um að Nordea-bankinn í Svíþjóð, einn stærstu bankanna í Skandinavíu, hefði aðstoðað viðskiptavini við að stofna aflandsfélög í Panama komu sænska fjármálaeftirlitinu á óvart, að því er sænska ríkisútvarpið hefur eftir einum yfirmanni þess. Eftirlitið rannsakaði og úrskurðaði í fyrra að bankinn ætti að greiða sektir fyrir skort á aðgerðum vegna hættu á peningaþvætti.

Samkvæmt reglum eiga bankar meðal annars að hafa góða vitneskju um viðskiptavini sína, meta áhættuna af peningaþvætti og hafa skilning á þeim færslum sem gerðar eru.

Yfirmaðurinn, Christer Furustedt, segir að engar upplýsingar hafi komið fram við rannsóknina á Nordea-bankanum um aflandsfélög í Panama. Furustedt segir að haft hafi verið samband við fjármálaeftirlitið í Luxemborg vegna frétta um að Nordea-bankinn hafi notað dótturfélag sitt þar til að stofna aflandsfélögin.

Spurður hvort aðrir bankar muni sæta rannsókn sagði Furustedt að slíkt yrði rætt innan fjármálaeftirlitsins.

Í yfirlýsingu frá Nordea-bankanum segir að frá 2009 hafi viðskiptavinum sem hafi viljað stofna aflandsfélög verið vísað frá. Samkvæmt Panama-skjölunum svokölluðu stofnaði bankinn aflandsfélög í fyrrasumar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×