Nafn Lionels Messi, besta leikmanns heims 2015, kemur fram í Panama-skjölunum svokölluðu sem voru opinberuð í dag.
Samkvæmt gögnunum var Mega Star Enterprise, félag í eigu Messi og föður hans, skráð sem aflandsfélag á Panama fyrir fjórum árum af lögmannsstofunni Mossack Fonseca þar í landi.
Messi-feðgarnir eru til rannsóknar hjá spænskum skattayfirvöldum fyrir skattsvik en þeir eru ásakaðir um að hafa notað aflandsfélög í Úrugvæ og Belís til að svíkja undan skatti.
Messi hefur neitað sök en þessar nýjustu upplýsingar um Mega Star Enterprise munu eflaust draga dilk á eftir sér.
Messi er ekki eina stórstjarnan í fótboltaheiminum sem á aflandsfélög en samkvæmt Panama-skjölunum naut Michel Platini, fyrrverandi forseti UEFA, aðstoðar Mossack Fonseca við að setja upp aflandsfélag á Panama 2007, sama ár og hann var kjörinn forseti UEFA.
Meðal annarra fótboltamanna sem koma fram í Panama-skjölunum má nefna Leonardo Ulloa, framherja Leicester City, og Gabriel Heinze, fyrrverandi varnarmanns Manchester United og Real Madrid.

