Erlent

Stjórnarherinn sækir áfram gegn ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá árás hersins á Palmyra.
Frá árás hersins á Palmyra. Vísir/EPA
Stjórnarher Sýrlands er sagður hafa veitt Íslamska ríkinu annað högg á dögunum. Ríkismiðlar þar í landi segja herinn hafa rekið vígamenn ISIS frá bænum Qaryatain í mið-Sýrlandi, með stuðningi Rússa. Einungis vika er frá því að herinn rak ISIS frá borginni Palmyra.

Eftirlitsaðilar segja hins vegar að herinn stjórni ekki bænum öllum og vígamenn haldi enn hluta hans.

Qaryatain þykir hernaðarlega mikilvægur bær og liggur hann á milli Palmyra og Damaskus. Áður en ISIS náði þar völdum bjuggu fjölmargir kristnir Sýrlendingar í bænum en þeir eru að mestu flúnir. Þá segir AP fréttaveitan frá því að tugir þeirra hafi verið handsamaðir af vígamönnum. 

Upplýsingar um stöðu mála í Sýrlandi má sjá á korti hér.

Syrian Observatory for Human Rights segja harða bardaga enn geisa í bænum. Þó séu vígamenn byrjaðir að hörfa þaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×