Lífið

Selja allt nema spítalagallana

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Fjórar af þeim tíu Reykjavíkurdætrum sem munu selja úr fataskápunum sínum í dag. Á myndinni eru þær Jóhanna, Salka, Bergþóra og Steinunn. frettablaðið/Stefán
Fjórar af þeim tíu Reykjavíkurdætrum sem munu selja úr fataskápunum sínum í dag. Á myndinni eru þær Jóhanna, Salka, Bergþóra og Steinunn. frettablaðið/Stefán
Í dag mun rappsveitin Reykjavíkurdætur selja af sér spjarirnar á Prikinu. Steinunn Jónsdóttir, ein af meðlimum sveitarinnar, segir að meðal þess sem verður til sölu verði fatnaður sem stelpurnar hafa klæðst á tónleikum sínum.

„Það verða samt engir spítalagallar á boðstólum því miður. Okkur langar að endurnýja fataskápinn okkar og við vorum með svipaðan fatamarkað fyrir seinasta sumar sem gekk mjög vel og það voru allir rosa ánægðir. Þetta árið verðum við samt líka með Reykjavíkurdætravarning en salan á honum rennur til fjármögnunar nýju plötunnar okkar sem er væntanleg í sumar.“

Ljóst er að nægt úrval fata verður á markaðinum enda ætla tíu stelpur úr þessari 16 manna hljómsveit að selja fötin sín. Steinunn segir að öll hin mikla samvinna í svona stórum hópi hafi gengið vonum framar og það að taka upp lög eða halda tónleika gangi eins og vel smurð vél.

„Við erum mjög margar í þessari hljómsveit en það hefur ekki verið neitt vandamál. Við erum allar mjög ólíkar og með mismunandi skoðanir en við erum búnar að þekkjast lengi og vinna náið saman þannig að við erum farnar að kunna hver á aðra. Við látum þetta virka.“

Það hefur verið nóg um að vera hjá Reykjavíkurdætrum upp á síðkastið og það lítur allt út fyrir að sumarið verði þeirra allra annasamasta hingað til. „Við fórum til London í byrjun mars og komum þá fram á þrennum tónleikum sem gekk alveg eins og í sögu. Svo í sumar erum við að fara á smá túr. Við spilum á tónlistarhátíðum í Noregi og Belgíu og svo loksins í Hróarskeldu í Danmörku.“

Rappsveitin er nú að leggja lokahönd á sína fyrstu plötu og eru þær að fjármagna hana að mestu með framlögum í gegnum Karolinafund. „Ég mundi segja að um 80% af plötunni séu tilbúin. Þetta verður mjög fjölbreytt plata og við erum að fá takta frá mjög mismunandi upptöskustjórum. Það verður líka nýtt hóplag á plötunni sem er framleitt af Ólafi Arnalds og Helga Sæmundi. Það eru tvær vikur eftir af Kickstarter-söfnuninni og við erum að bjóða upp á alls konar skemmtilegt fyrir þá sem leggja okkur lið. Til dæmis fyrir væna upphæð ætlum við að bjóða upp á ferð um Gullna hringinn nema í okkar eigin stíl.“ 

 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. apríl.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×