„Við fluttum inn fyrir rúmum mánuði en framkvæmdir hófust strax í jólafríinu. Við rifum hreinlega allt út og hér voru iðnaðarmenn að vinna fram á síðustu stundu. En þá var líka allt klárt. Eftir að maður flytur inn nennir maður heldur ekki að gera neitt, ekki einu sinni skipta um peru,“ segir Berglind Pétursdóttir en hún og Steinþór Helgi Arnsteinsson gerðu upp huggulega íbúð í miðbænum.
Framkvæmdirnar kostuðu blóð svita og tár og segir Berglind yndislegt að vera flutt inn en á meðan á framkvæmdum stóð bjuggu þau hjá foreldrum hennar.
„Þau voru mjög glöð að losna við okkur. En auðvitað var þetta ljúft líf, fyrir okkur, að þurfa aldrei að kaupa í matinn og geta bara eytt öllum peningunum í Byko. Við erum strax búin að panta okkur sérstaka þjónustu, þar sem keypt er í matinn fyrir mann og sent heim með uppskrift. Það þarf að spara nýja eldhúsið. Mér líður eins og sjónvarpskokki, með allt niðurskorið í réttum hlutföllum fyrir framan mig og kryddin í litlum krukkum,“ segir Berglind.

„Það rennur stundum á mig bleikt æði og ég náði að kýla bleikar flísar í gegn inni á baði og einn bleikan vegg í eldhúsinu. Baðflísarnar sáum við þegar við fórum út að borða á Taco-barnum á Hverfisgötu. Gengum svo flísabúð úr flísabúð og spurðum hvort þau hefðu mögulega selt Dóru Takefusa bleikar flísar! Fundum búðina og pöntuðum eins.“
Hvaðan kemur eldhúsinnréttingin sem á að spara svona vel?
„Við enduðum hjá krökkunum í eldhúsdeild IKEA eftir mikla leit að innréttingu. Þau voru svo dásamleg að ég vildi fara aftur og aftur til þeirra. Þau teiknuðu örugglega fyrir okkur um sjö hundruð tillögur. Á endanum tókum við svo bara einhverja beisik innréttingu,“ segir Berglind.


Eldhúsið er bjart og hvítar opnar hillur geyma glös og leirtau. Ljósið yfir eldhúsborðinu setur mikinn svip á eldhúsið og eins grænar plöntur í hvítum pottum.
„Allt gervi. Ég fékk tvo kaktusa í innflutningsgjöf sem vonandi munu halda lífi. Við áttum plöntur sem fóru í pössun meðan á framkvæmdunum stóð. Þær hafa það svo gott þar að ég hugsa að þær verði þar áfram. Gormaljósið fékk ótrúlega góð viðbrögð á Twitter frá eldra fólki sem sagðist hafa átt svona árum saman „og gormurinn virkar enn“. Ég held að ég hafi gert mjög góð kaup,“ segir Berglind og er yfir sig ánægð með nýja heimilið.



