Margrét Jóhannsdóttir vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í einliðaleik á Meistaramóti Íslands í badminton sem lauk í gær. Margrét bar sigurorð af Tinnu Helgadóttur í úrslitaleiknum. Karlamegin varð Kári Gunnarsson hlutskarpastur.
„Það var ótrúlega gaman að vinna þetta loksins,“ sagði Margrét þegar Fréttablaðið heyrði í henni hljóðið í gær. Þetta var þriðja árið í röð sem hún mætir Tinnu í úrslitum og eftir tvö töp hafði hún loksins betur.
Sigurinn er líka merkilegur fyrir þær sakir að Tinna er landsliðsþjálfari í badminton. „Ég var ekkert að pæla í því,“ sagði Margrét aðspurð hvort það hefði ekkert verið skrítið að sigra landsliðsþjálfarann. „Við höfum æft saman og þetta var ekkert sem truflaði.“
Margrét sigraði Tinnu einnig í úrslitaleiknum í tvenndarleik. Margrét keppti með Daníel Thomsen en Tinna með bróður sínum Magnúsi Inga. Margrét og Daníel unnu báðar loturnar 21-19 og vörðu þar með Íslandsmeistaratitil sinn.
„Þetta var mjög góður leikur hjá okkur. Við lentum undir en rifum okkur svo í gang og tókum þetta,“ sagði Margrét um úrslitaleikinn í tvenndarleik. En hvað tekur við hjá Íslandsmeistaranum núna?
„Ég er að fara með landsliðinu á mót í Lettlandi og Litháen í júní. Ég kem svo heim í nokkra daga áður en ég fer út til Frakklands með TBR þar sem við tökum þátt í Evrópukeppni félagsliða,“ sagði Margrét Jóhannsdóttir, nýkrýndur Íslandsmeistari, að lokum.
Tvöfaldur sigur á landsliðsþjálfaranum
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið

„Hugur minn er bara hjá henni“
Íslenski boltinn

Aubameyang syrgir fallinn félaga
Fótbolti

„Skitum á okkur í þriðja leikhluta“
Körfubolti

„Þetta var skrýtinn leikur“
Íslenski boltinn


„Fáránlega erfið sería“
Körfubolti



