Innlent

Sjaldan verið betri aðstæður til að ganga á Hvannadalshnjúk

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá ferðinni upp á toppinn á laugardaginn.
Frá ferðinni upp á toppinn á laugardaginn. mynd/ólafur már björnsson

Tómas Guðbjartsson, læknir, var einn af þeim sem gekk á Hvannadalshnjúk um helgina í frábæru veðri og góðu færi. Hann segir að núna séu kjöraðstæður til að fara á hæsta tind landsins og vill því hvetja áhugasama til þess að nýta tækifærið og ganga á hnjúkinn eigi þeir þess kost.

„Mér telst til að það hafi hátt í 300 manns farið á toppinn nú um helgina þannig að það var mikil traffík en hún hefði alveg getað verið meiri,“ segir Tómas í samtali við Vísi.

Hann segir að fólk eigi þó alls ekki að fara á eigin vegum á hnjúkinn heldur slást í för með vönu fjallafólki. Ýmsir aðilar skipuleggi ferðir á hnjúkinn, þar á meðal Ferðafélag Íslands og Útivist sem og ferðaþjónustuaðilar í Skaftafelli.

„Þetta er um 14-16 tíma ganga þannig að fólk þarf að vera í góðu formi. Svo er auðvitað betra ef fólk hefur gengið áður í línu og á broddum, það er kannski svolítið erfitt að ætla að byrja á þessu. En þetta er auðvitað frábær útivist í góðum félagsskap að upplifa náttúruna svona eins og þarna á sunnudaginn. Það sást yfir hálft landið,“ segir Tómas.

Tómas hefur farið nokkrum sinnum upp á hnjúkinn og segir að aðstæður hafi sjaldan verið betri. Aðeins minni snjór sé reyndar nú en í meðalári en sprungur séu lítt sjáanlegar og góður snjór bæði fyrir göngu- og skíðafólk. Meðfylgjandi myndir tóku Tómas og ferðafélagi hans, Ólafur Már Björnsson.

Frá upphafi ferðarinnar.mynd/ólafur már björnsson
Tómas segir að færið til að fara á tindinn sé nú mjög gott og hafi sjaldan verið betra.mynd/ólafur már björnsson
Alls fóru hátt í 300 manns á Hvannadalshnjúk um helgina.mynd/ólafur már björnsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×