Guðlaugur Arnarsson er tekinn við karlaliði Vals í handbolta, en hann mun þjálfa liðið ásamt Óskari Bjarna Óskarssyni.
Guðlaugur sem hefur þjálfað lið Fram frá árinu 2013 hætti þar í lok tímabils, en Fram tapaði einmitt gegn Val í átta liða úrslitum Olís-deildarinnar í oddaleik, 3-2.
Eins og áður segir mun Guðlaugur mynda teymi með aðalþjálfaranum, Óskari Bjarna Óskarssyni, en Valsmenn duttu út í oddaleik gegn Aftureldingu í undanúrslitum Olís-deildarinnar.
„Stjórn hkd Vals bindur miklar vonir við samstarf Guðlaugs og Óskars, lýsir yfir mikilli ánægju með ráðninguna og býður Húsvíkinginn hjartanlega velkominn á Hlíðarenda,” segir í tilkynnningu Vals.
Einhver skörð hafa verið höggvinn í lið Vals, en frændurnir Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason eru á leið til Frakklands í atvinnumennsku.
Orri Freyr Gíslason skrifaði í gær undir nýjan tveggja ára samning við Val, en hann á að baki tæplega 300 leiki með meistaraflokki Vals.

