Davíð Oddsson var í nær stöðugri sókn og veittist harklega að andstæðingi sínum. Þar snérist gagnrýni hans á Guðna aðallega að málefnum tengdum Icesave samningnum sem og afstöðu hans til breytingar á stjórnarskránni.
Segir Guðna hlaupast undan því að greina frá afstöðu sinni í Icesave
Þegar kom að gagnrýni Guðna varðandi Icesave vísaði Davíð í grein sem birtist í tímaritinu Reykjavík Grapevine í ágúst árið 2009, nokkrum mánuðum áður en ríkisstjórn Íslands skrifaði undir samning um greiðslur vegna tjóns af völdum Icesave ásamt fulltrúum Breta og Hollendinga. Þjóðaratkvæðagreiðslunar tvær um Icesave fóru fram í mars 2010 og í apríl 2011.
Davíð hafði meðal annars eftir Guðna upp úr áðurnefndri grein; „Það getur verið að okkur líki Icesave-samningurinn illa, en hinn kosturinn er miklu verri og kannski er þetta það besta sem við, eða einhver annar, gæti fengið.“
Davíð vildi með þessu meina að Guðni hefði verið hlynntur því að greiða upp „skuldir óreiðumanna“ eins og hann orðaði það og sakaði hann um að reyna hlaupast frá því að greina þjóðinni frá þessari afstöðu sinni.
„Varstu virkilega að að mæla með því að gera samning sem við gætum ekki staðið við?“, spurði Davíð Guðna meðal annars.
„Hvar ættum við að hefja umræðuna um Icesave,“ spurði Guðni á móti. „Eigum við að hefja hana í blaði Reykjavík Grapevine frá 2009 eða eigum við að hefja hana með því að ræða það hvernig eftirlitsstofnanir brugðust hér? Hvernig margir ráðamenn fögnuðu því sem var í gangi og kölluðu það tæra snilld? Mér finnst þetta ósanngjarnt.“

Davíð beindi næst spjótum sínum að Guðna vegna afstöðu hans til stjórnarskrárbreytinga og sakaði hann um að vilja „kollvarpa“ henni.
„Stjórnarskrá Íslands er ekki breytt á Bessastöðum,“ svaraði Guðni. „Ég hef mælt með því að í stjórnarskrá verði bætt við ákveði þar sem almenningur geti komið að ákvörðunum með kosningu eða einhverju slíku. [...] Hefði Davíð Oddsson haft sitt fram, eða landsfundur Sjálfstæðisflokksins, þá hefði ekki verið neitt synjunarvald í stjórnarskránni þegar ósköpin gengu hér yfir á sínum tíma.“
„Þú ert staðinn að því að vera reyna hlaupa frá öllu saman,“ sagði Davíð. „Þú segir hérna að þú viljir gera gagngera, róttæka endurnýjum á stjórnarskránni. Þú segir það vera vegna hrunsins. Hvað hafði hrunið með stjórnarskránna að gera?“
„Hefur þú enga sómakennd?,“ spurði Guðni á móti. „Ég hef ekki talað um kollvörpun stjórnarskráarinnar. Ég hef talað um endurbætur. Leyfum fólkinu að ráða. Forseti hefur ekki neitt með þetta að segja.“
Hér fyrir neðan má sjá þann hluta Eyjunnar þar sem Davíð og Guðni tókust á.