Andri Snær Magnason sagðist ekki hafa verið í stjórnmálaflokki en hann hefði þó tengst umhverfisverndarsamtökum og félögum sem fást við nýsköpun.
Guðni Th. Jóhannesson sagðist ekki hafa verið í stjórnmálaflokki en Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, greip þá inn í umræðuna og sagði flokksskírteini ekki segja alla söguna.
„Fólkið sér hvar þú ert í flokki,“ sagði Davíð Oddsson sem beindi síðan orðum sínum að Guðna Th.
„Við sáum í greiningu síðustu könnunar að nánast allir Samfylkingarmenn styðja Guðna og það er ákveðin skýring á því ekki satt?“ spurði Davíð.
Þorbjörn Þórðarson, annar af þáttastjórnendum, benti Davíð á að samfylkingin mælist með átta prósenta fylgi í skoðanakönnunum en 65 prósent segjast ætla að kjósa Guðna. Þá var Davíð bent á að mjög margir sjálfstæðismenn styðji Guðna, sem og framsóknarmenn og Píratar.
„Ég ætla nú ekki að fara að þrasa við þig. Ég get þrasað við aðra hérna,“ sagði Davíð við Þorbjörn.
Í nýjustu könnun MMR til forsetaframbjóðenda voru þeir sem tóku afstöðu spurðir út í stuðning við flokka.
81,8 prósent þeirra sem sögðust styðja Samfylkinguna ætla að kjósa Guðna Th., 40,2 prósent þeirra sem sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn, 45,1 prósent Framsóknarflokkinn, 76,2 prósent Vinstri græn, 67,6 prósent Bjarta framtíð og 64,8 prósent Pírata.
Hægt er að sjá niðurstöðurnar í heild hér fyrir neðan:
