„Okkar viðbrögð við þessari könnun eru þau að hún er frekar gömul og við erum fullviss um að þetta endurspegli ekki stöðuna eins og hún er í dag,“ sagði Erla Gunnlaugsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Davíðs Oddssonar, þegar Vísir óskaði eftir viðbrögðum frambjóðandans við nýrri skoðanakönnun MMR vegna forsetakosninganna sem eru eftir akkúrat mánuð.
Í könnuninni mælist Davíð með næstmest fylgi þeirra sem eru í framboði, eða 18,1 prósent, en Guðni Th. Jóhannesson er með 65,6 prósent fylgi.
Erla segir að könnunin, sem gerð var dagana 12.-20. maí, sé gerð á því tímabili þegar Davíð var nýbúinn að tilkynna um framboð sitt en það gerði hann fjórum dögum áður en könnunin hófst, þann 8. maí. Aðspurð segir Erla að Davíð haldi ótrauður áfram í baráttunni.
„Já, að sjálfsögðu heldur hann áfram.“
