Frá og með lokum október næstkomandi mun breska flugfélagið British Airways fljúga daglega milli Keflavíkur og London en síðan í haust hefur flugfélagið flogið þrisvar í viku hingað til lands.
Greint er frá þessu á vefsíðunni Túristi.is. British Airways flýgur til og frá Heathrow-flugvelli, líkt og Icelandair sem fer tvær ferðir á dag til Heathrow, en lendingarleyfi á flugvellinum liggja ekki á lausu og eru því mjög verðmæt að því er segir í frétt Túrista. Þá getur því verið vísbending um að Íslandsflugið sé ábatasamt fyrir British Airways þar sem flugfélagið ætlar að nýta sjö tímaslott á viku í það.
Í samtali við Túrista segir Peter Rasmussen, svæðisstjóri British Airways á Norðurlöndum, að þessi aukning á fjölda flugferða á norrænni flugleið sé óvenju hröð.
Alls bjóða fjögur flugfélög upp á flug milli Íslands og London, British Airways, Icelandair, easyJet og WOW air.
British Airways flýgur daglega milli Keflavíkur og London
