Talsvert uppnám er nú meðal skotveiðimanna, þeirra sem halda hópinn á Facebook í grúbbu sem kallast Skotveiðispjallið.

Menn ræða nú þessa vá inni á spjallinu og er vitnað til orða sem Árni lét falla einhverju sinni á netinu og eru býsna beinskeytt, ef nota má það orð yfir eftirfarandi:
„Heimilt er að skjóta dýr en ekki menn. Hví? Lukkulega er ekkert í lögum sem bannar dýrum að skjóta menn og því er það ekki refsivert. Gott væri að dýr skytu menn eða stönguðu þá til dauða og hefðu fullan rétt til þess. Ég nýt þess að sjá naut meiða banann, helst drepa hann. Ég hef litla samúð með sjómönnum sem falla útbyrðis af augljósum ástæðum. Ég hef enga samúð með rjúpnaskyttum sem drepast.“

Segja má að Árni Stefán sé kominn í feitt því inni á Skotveiðispjallinu tala menn frjálslega um hvað eina sem snýr að skotveiðum, og þar má til að mynda finna myndbönd sem ekki eru fyrir viðkvæma; til að mynda þegar minkahundar eru að störfum. Gera má ráð fyrir því að lögmaðurinn sé nú að safna gögnum, en hvað hann vill gera með þau verður að koma í ljós.