„Ákvörðunarferlið tók þrjá daga. Frá því að hugsunin kom fyrst þar til ég var búin að taka ákvörðun,“ segir hún í föstudagsviðtalinu þar sem hún mætti Andra Snæ og Ástþóri.
Hún segist vanalega vera nokkuð spontant. „En ég get líka bakkað og skipt um skoðun. Það hefur verið einu sinni freistandi að bakka út, þegar Ólafur Ragnar tilkynnti um framboð.“
Guðrún segist ekki finna fyrir að vera orðin þekkt á Íslandi eftir að hún ákvað að bjóða sig fram.
„Ég lít stundum í kringum mig en fólk er ekkert að kveikja. Meira að segja þegar ég var að skila undirskriftarlistunum þekkti fólkið mig ekki og ég var spurð í þrígang: „Hvað er nafnið þitt? Og fyrir hvern ert þú að skila?“

„Ég er vanur að vera úti á akrinum, í eldlínunni en nú er maður að draga með sér stærri einingu, alla fjölskylduna,“ segir hann en það kom honum á óvart hvað börnin hans fjögur eru róleg yfir framboðinu.
„Þau tilheyra öðru fjölmiðlaumhverfi og kippa sér ekkert upp við það þótt frétt um forsetaframboð pabba þeirra birtist á tímalínunni.“
Ástþór segist ekki vera mikið fyrir sviðsljósið.
„Ég er mjög prívat persóna en ég geri þetta fyrir málefnið. En ég er orðinn löngu vanur því að vera þekktur en konunni minni og dóttur finnst það frekar óþægilegt. En þetta er fylgifiskur þess að fara í svona baráttumál.“