Guðni Th. Jóhannesson forsetaframbjóðandi minntist fórnarlamba voðaverkanna í Orlando um helgina á opnum fundi sem hann hélt í Hörpu í gær, en Omar Mateen myrti 50 manns á skemmtistaðnum Pulse í Orlando aðfaranótt sunnudags. Var Pulse vinsæll skemmtistaður hinsegin fólks í borginni og skotárásin á samfélag þeirra.
„Hér úti blaktir í hálfa stöng, regnbogafáninn og þannig minnumst við þeirra sem misstu lífið í Orlando í Bandaríkjunum í tilefnislausri og hræðilegri árás,“ sagði Guðni á fundinum í Hörpu í gær og bætti við að fólk ætti að standa saman og verja það sem væri því kærast, lífið sjálft.
„Við eigum að verja mannréttindi, við eigum að verja ástfrelsi, við eigum að verja minnihlutahópa og við eigum að standa vörð um jafnrétti allra. Við eigum að standa vörð um jafnrétti kynjanna, jafnrétti allra í samfélaginu.“
Er þetta fyrsti opni fundurinn sem Guðni heldur á höfuðborgarsvæðinu en seinustu vikur hefur hann haldið fjölda funda víða um land. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins nýtur hann mest fylgis meðal kjósenda, eða 56 prósent, en fylgi hans dalar þó frá seinustu könnun blaðsins þegar það mældist 60,6 prósent.
