Stoltur styrktaraðili
Atli Már er einn þeirra þúsunda manna sem fylgist grannt með gangi mála og gengi Íslands á EM. Þó hann sé ánægður með það, í sjálfu sér, er hann hreint ekki ánægður með það sem snýr að því að komast til Frakklands. Hann skrifar harðorðan pistil á Facebooksíðu sína þar sem hann vandar íslensku flugfélögunum ekki kveðjurnar. Atli Már er staddur úti en segist hafa fundið sér aðrar leiðir þangað en með íslensku flugfélögunum.
„Eitt segist „flugfélag fólksins“ en hitt „stoltur“ styrktaraðili íslenska landsliðsins – þessi slagorð eru jafn innihaldslaus og yfirlýsingar Ronaldo eftir leikinn við Portúgal. Það getur vel verið að þessi flugfélög bjóði upp á ódýr fargjöld af og til en þegar það reynir á þá eru þau ekkert nema eitt stórt dollaramerki.“
Vilja græða á góðu gengi liðsins
Atli Már hvetur vini sína á Facebook til að finna aðrar leiðir, fjölmörg flugfélög fljúgi frá Keflavíkurflugvelli í allar áttir, og þau flugfélög séu ekki að reyna að mokgræða á Íslendingum.
„Íslendingarnir hérna úti tala fallega um allt og alla nema íslensku flugfélögin – þá hef ég bent fjölmörgum útlendingum á það hér í Frakklandi, sem spennt eru fyrir landi og þjóð, að hægt sé að fljúga til fyrirheitna landsins með öðrum leiðum en að nýta sér þjónustu WOW og Icelandair.“

Vísir er nú að leita svara hjá flugfélögunum um þróun á flugmiðaverði, en víst er mörgum er brugðið vegna hækkana á flugfargöldum; alltaf þá er fyrir liggur að nýr leikur sé í uppsiglingu.