Ísland mætir Frakklandi í átta liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu á Stade de France í París á sunnudaginn. Miðasala á leikinn, þ.e. sala á þeim miðum sem enn eru í boði, hefst klukkan tólf á hádegi á morgun.
Miðasala fer fram á heimasíðu Knattspyrnusambands Evrópu og þar geta stuðningsmenn líka tryggt sér sæti í röð fimmtán mínútum fyrr eða klukkan 11:45 að íslenskum tíma.
Stade de France tekur um áttatíu þúsund manns í sæti og því von á því að Íslendingar geti tryggt sér fleiri miða en tókst á leikinn gegn Englandi í kvöld. Þrjú þúsund íslenskir stuðningsenn áttu þó stúkuna í Nice í kvöld.
