Strákarnir í karlalandsliði Íslands í knattspyrnu fengu góða heimsókn á hótelið sitt í Annecy í dag. Þangað kom færandi hendi Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Genf, ásamt Helgu Bertelsen sendiráðsfulltrúa. Forsetakosningar eru á Íslandi á laugardaginn og fengu strákarnir í karlalandsliðinu og starfsfólk að kjósa í kvöld.
„Ég er í skemmtilegu verkefni. Við vorum að framkvæma utankjörfundaratkvæðagreiðslu vegna forsetakosninganna og gefa landsliðsstrákunum möguleika á að taka þátt í þeim þó þeir séu ekki á Íslandi,“ sagði Martin í samtali við Vísi í Annecy í kvöld.
„Þetta gekk bara vel. Þetta eru fyrirmyndarpiltar í alla staði og þetta fór mjög vel fram eftir kúnstnarinnar reglum.“
Martin, sem spilaði knattspyrnu með ÍBV á sínum tíma, sagði kosningu á hótelinu hafa verið yfir meðallagi. Fyrir gamlan knattspyrnumann hafi verið forréttindi að fá að heimsækja landsliðið á hótelið.
Eyjapeyjar í mörgum stöðum
„Þetta var virkilega gaman og gmana að hitta minn gamla félaga úr ÍBV, Heimi Hallgrímsson, og fleiri góða Eyjamenn. Einsa kalda kokk, Jóhannes Ólafsson, í landsliðsnefndinni og fyrrverandi formann knattspyrnudeildarinnar, Ómar Smárason hjá KSÍ og Víði Reynisson öryggisstjóri.“
Martin er Eyjamaður í húð og hár og fékk viðurnefnið bjargvætturinn í upphafi 10. áratugarins. Ástæðan var sú að hann skoraði sigurmark Eyjamanna í lokaumferðinni tvö ár í röð, mörk sem björguðu þeim frá falli.
En telur Martin okkur eiga möguleika gegn Englandi í Nice á mánudaginn?
„Já, ég tel að við eigum góða möguleika. Við sjáum það að við erum að vera betri og betri. Okkar lykilmenn sem voru ekki í sínu besta leikformi hafa verið að spila betur og betur með hverjum leiknum. Við eigum tvímælalaust góða möguleika gegn Englandi. “

