Andri Snær Magnason vonast eftir kraftaverki á laugardaginn þegar gengið verður til forsetakosninga. Hann mælist með 12,9 prósent fylgi í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis.
„Ef ég vaska upp og það kemur svona gullinn Ajax-dropi í brákina og allt breytist skyndilega, eins og í leiknum í gær, það er svo margt sem getur breyst,“ sagði Andri í kappræðum forsetaframbjóðenda á Stöð 2 í kvöld og vísaði þar til Ajax-uppþvottalögs og frægrar auglýsingar þar sem Ajax-uppþvottalögurinn vann auðveldlega á fitu. „Ég sé kannski gullinn Ajax-dropa á eftir sem gjörbreytir öllu.“
Andri gagnrýndi þó að áherslan í þessari kosningabaráttu hefði verið mikil á skoðanakannanir og hefði hann viljað að meira púðri yrði eytt í að kanna áherslu frambjóðenda.
„Frá upphafi þessarar kosningarbaráttu hefur þetta verið þrúgað af skoðanakönnun heldur en að kanna skoðanir frambjóðenda,“ sagði Andri.

