Jon Jones er væntanlega fallinn á lyfjaprófi og mun því ekki keppa við Daniel Cormier. Þetta er gríðarlegur skellur fyrir UFC.
Upprunalega átti bardagi Conor McGregor og Nate Diaz að verða aðalbardagi kvöldsins. Íranum McGregor var aftur á móti hent af bardagakvöldinu þar sem hann mætti ekki til að uppfylla fjölmiðlaskyldur í Las Vegas.
Þá vildi hann frekar æfa með Gunnari Nelson á Íslandi. Lætin urðu svo mikil að McGregor sagðist vera hættur að berjast. Sú dramatík stóð þó aðeins yfir í tvo daga.
Þrátt fyrir boð um að koma til baka þá stóð Dana White, forseti UFC, fastur á því að hleypa Conor ekki aftur á bardagakvöldið.
Þjálfari Conors og Gunnars, John Kavanagh, velti því fyrir sér á Twitter hvort UFC sæi ekki eftir þessum hörðu viðbrögðum í garð Írans þar sem ekkert yrði af bardaga Cormier og Jones.
Dana White fylgist með orðum Kavanagh og var fljótur að svara honum með orðinu: Zero. Hvort allir trúi því er svo annað mál.
@John_Kavanagh zero
— Dana White (@danawhite) July 7, 2016