Andy Murray varð nú rétt áðan síðastur til að tryggja sér sæti í undanúrslitum karla á Wimbledon-mótinu í tennis.
Murray bar þá sigurorð af Frakkanum Jo-Wilfried Tsonga í fimm settum í hörkuleik, 7-6, 6-1, 3-6, 4-6 og 6-1.
Skotinn mætir Tomas Berdych frá Tékklandi í undanúrslitunum á föstudaginn. Murray hefur einu sinni hrósað sigri á Wimbledon, árið 2013.
Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Svisslendingurinn Roger Federer, sem er sjöfaldur Wimbledon-meistari, og Kanadamaðurinn Milos Raonic.
