Eins og vera ber er fjallað um leik Íslendinga og Frakka í 8-liða úrslitum Evrópumótsins á öllum helstu fréttamiðlum heims. Umfjallanir og fyrirsagnir bera margar keim af því að Íslendingar voru að keppa á EM í fyrsta sinn, því að Frakkar voru gestgjafarnir og unnu okkur með þremur mörkum í kvöld, 5-2.
Í umfjöllun Guardian um leikinn segir meðal annars að verðugur andstæðingur, Frakkar, hafi traðkað á ævintýri minnstu þjóðarinnar sem nokkurn tímann hefur komist á EM. Ævintýrinu er slegið upp í fyrirsögn á fótboltamiðlinum Four Four Two þar sem segir að gestgjafarnir hafi bundið enda á ævintýri liðsins sem var að þreyta frumraun sína á EM.
Á Goal.com segir að Frakkar hafi loksins brotið ísinn og sent Þjóðverjum skýr skilaboð. Á forsíðu Sky Sports er skemmtilegur orðaleikur, Hot French toast Iceland, en einhverjir kannast við morgunverðinn „french toast.“ Orðaleikurinn er langt því frá eins skemmtilegur á íslensku en útleggst þó einhvern veginn svona: Heitir Frakkar rista Ísland.
Í umfjöllun BBC segir Danny Mills, sparkspekingur, að Ísland þurfi nú að einbeita sér að því að komast á HM í Rússlandi árið 2018.
„Þessi leikmannahópur getur gert það, þeirra hafa gríðarlega mikið sjálfstraust eftir þessa frammistöðu á EM,“ segir Mills.
Á vef Telegraph segir í fyrirsögn að sigur Frakka hafi verið afgerandi á lítilmagnanum. Þá segir á vef AFP að Frakkar hafi hamrað Íslendinga og þannig bókað lokauppgjör við Þjóðverja.
