Fótbolti

Aron: Synd að annar þeirra þurfi að hætta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Þjálfararnir Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson voru í dag spurðir hvernig samstarf þeirra virkar en þeir deila sem kunnugt er stöðu landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu.

Ísland mætir á morgun Frakklandi í 8-liða úrslitum EM í Frakklandi en árangur íslenska liðsins hefur vitanlega vakið mikla athygli.

Lagerbäck sagði að samstarf þeirra væri gott en að það væri ekkert nýtt fyrir hann að starfa svona, enda gerði hann það áður þegar hann var þjálfari sænska landsliðsins.

„Þetta er bara svona formsins vegna. Við störfuðum líka svona fyrstu tvö árin [þegar Heimir var aðstoðarþjálfari] en mestu máli skiptir er að vera með gott starfslið og góð samskipti. Fjögur augu sjá betur en tvö.“

Sjá einnig: Sjáðu blaðamannafund strákanna á Stade de France í heild sinni | Myndband

„Ég hef hins vegar ekki lært tungumálið og því er Heimir mjög mikilvægur í að fylgjast með öllu óformlegu spjalli og því sem kemur fram þar. En fyrst og fremst er það allt starfsliðið sem vinnur þetta starf saman.“

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði landsliðsins, sagði að leikmenn gætu leitað til beggja leikmanna jafnt.

„Þeir vita báðir hvað þeir eru að gera. Annar þeirra [Lars] hefur reynsluna en hinn er meira með tölvumál og tekníska þáttinn. Þetta blandast virkilega vel saman hjá þeim,“ sagði Aron Einar en sem kunnugt er mun Lars Lagerbäck hætta með íslenska landsliðið eftir EM og tekur þá Heimir alfarið við liðinu.

„Það er synd að annar þeirra sé að hætta en hinn er mjög hæfur og vel til þess fallinn að taka við. Hann hefur lært mikið af reynslu Lars. Þetta hefur virkað vel og samstarf þeirra verið frábært.“

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×