Fótbolti

Hugo Lloris um Gylfa: Góður strákur og frábær leikmaður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson spilaði með fyrirliða Frakka í tvö ár.
Gylfi Þór Sigurðsson spilaði með fyrirliða Frakka í tvö ár. vísir/vilhelm
Hugo Lloris, markvörður og fyrirliði franska landsliðsins í fótbolta, hefur mikið álit á Gylfa Þór Sigurðssyni, landsliðsmanni Íslands, en þeir spiluðu saman hjá Tottenham í tvö ár.

Lloris sat blaðamannafund á Stade de France í dag þar sem Ísland og Frakkland mætast annað kvöld í átta liða úrslitum.

„Hann er búinn að vera mjög góður hjá Swansea og hjálpaði því að halda sér uppi. Hann er góður með hægri og vinstri, skorar mörk og er góður í föstum leikatriðum,“ sagði Lloris um Hafnfirðinginn. „Ísland er samt ekki bara Gylfi Þór þó hann sé mikilvægur.“

Lloris þekkir Gylfa ágætlega eftir að eyða með honum tveimur árum í Lundúnum og ber honum söguna vel.

„Hann er góður strákur og frábær leikmaður. Sú staðreynd að hann er Íslendingur verður til þess að hann fær ekki jafnmörg tækifæri og aðrir til að sýna hvað hann getur,“ sagði Hugo Lloris.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×