Viðskipti innlent

Heimskautsgerðið hálfbyggt er orðið glæsilegt mannvirki

Kristján Már Unnarsson skrifar
Heimskautsgerðið við Raufarhöfn er orðið eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna sem leggja leið sína um Melrakkasléttu. Enn vantar þó mikið upp á að ljúka gerð þessa einstaka mannvirkis. 

Það gnæfir yfir Raufarhöfn en tólf ár eru liðin frá því byrjað var að reisa það á ásnum norðvestan við þorpið. Textahöfundurinn landskunni Jónas Friðrik er meðal þeirra sem fylgt hafa verkefninu frá upphafi. Hann segir ferðamennina þó misgáfulega sem heimsækja Heimskautsgerðið og er ekki hrifinn af þeim sem klifra upp á það, sem er illa séð.

Hugmyndina átti Erlingur Thoroddsen hótelstjóri og fékk hann Hauk Halldórsson listamann til að teikna gerðið. Steinblokkirnar mynda sólúr við nyrstu strendur Íslands og eru í anda Stonehenge í Englandi. Og þótt hálfbyggt sé, er Heimskautsgerðið þegar orðið eitt helsta einkennistákn Raufarhafnar. 

Og til þess var leikurinn gerður, að fá ferðamenn til að beygja af hringveginum og heimsækja Raufarhöfn. 

„Það er alltaf straumur hér af fólki þannig að það er að virka. Maður er alltaf að sjá bíla fara hingað uppeftir,“ segir Jónas Friðrik.

Í frétt Stöðvar 2 voru sýndar myndir af því hvernig Heimskautsgerðið mun líta út fullbyggt. Það er því mikið ógert.  Mikla fjármuni þarf til að ljúka verkinu. 

„Svona 70-80 milljónir, eitthvað svoleiðis. Ég er ekki með það á mér, sko.“ 

-En þið eruð að minnsta kosti komnir þetta langt? 

„Já, en þetta er búið að taka tímann sinn. Við byrjuðum 2004 þannig að þetta smáþokast bara. En það er líka ágætt. Sígandi lukka, hún er góð.“ 

-En fullgert, þá verður þetta virkilega glæsilegt mannvirki? 

„Þetta ER glæsilegt mannvirki. En þegar það er fullgert verður það ennþá flottara, náttúrlega,“ svarar skáldið Jónas Friðrik Guðnason.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×