Íslenski boltinn

Hermann: Getur vel verið að Sító fari

Hermann Hreiðarsson þjálfari Fylkis
Hermann Hreiðarsson þjálfari Fylkis
Jose Seoane Vergara, eða Sító eins og hann er oftast kallaður, sat allan tímann á bekknum hjá Fylkismönnum í tapleiknum gegn KR í kvöld. Vísir spurði Hermann Hreiðarsson, þjálfara Fylkis, að því hvort Sító væri á leið frá félaginu.

"Það getur vel verið, eins og hjá öllum öðrum verða sjálfsagt einhverjar hreyfingar. Það kemur bara í ljós, það er er ekkert á borði í því. Við erum svo eins og aðrir að líta aðeins í kringum okkur og ef við finnum einhvern sem okkur vantar og styrkir okkur þá skoðum við það," sagði Hermann í samtali við Vísi að leik loknum.

Hermann sá fullt af jákvæðum hlutum í leik sinna manna þrátt fyrir 4-1 tap á heimavelli.

"Við erum hundfúlir með stórt tap en það er hellingur jákvætt, ég get lofað þér því. Það var brjáluð vinnsla í liðinu, barátta og vilji. En þú þarft að verjast alls staðar, það er ekki nóg að verjast bara á miðjunni og taka annan bolta. KR er hörkulið og ef menn eru fríir inni í vítateig þá refsa þeir," bætti Hermann við.

Fylkismenn lentu 2-0 undir strax eftir 10 mínútur en Hermann vildi þó meina að flestir í hans liði hefðu verið mættir til leiks í upphafi.

"Flestir mættu til leiks. Það eru tveir einstaklingar sem verða að taka svolitla ábyrgð á þessu og voru bara ekki alveg vaknaðir," sagði Hermann en vildi þó ekki gefa upp hvaða leikmenn hann átti við og sagðist ætla ræða það inni í klefa.

Fylkismenn voru í miklum vandræðum með pressu KR-inga í leiknum og gekk bölvanlega að halda boltanum innan liðsins.

"Við pressuðum þá líka grimmt. Við fáum dauðafæri í stöðunni 2-1 og mörk breyta leikjum. En auðvitað er þetta alltaf smá brekka að lenda 2-0 undir eftir 10 mínútur. Andstæðingarnir fá byr undir báða vængi og sjálfstraust. En við sýndum flottan karakter hér í dag. Við héldum áfram og vorum enn að ógna hér á lokamínútunum og prófa markmanninn. Ég tek helling jákvætt úr leiknum og fullt af flottum punktum úr þessu. En við töpuðum 4-1 og þeir refsuðu vel í dag," sagði Hermann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×