Matsfyrirtækið Standard & Poor’s býst ekki við meiriháttar stefnubreytingu hér á landi komist Píratar til valda eftir alþingiskosningar í haust. Þetta kemur fram í rökstuðningi fyrirtækisins fyrir óbreyttu lánshæfismati ríkissjóðs, BBB+/A-2 með stöðugum horfum. Raunar gerir fyrirtækið ráð fyrir því að stefnan verði í meginatriðum áþekk óháð því hvaða flokkar sitji í ríkisstjórn.
Þó segir fyrirtækið að það gæti reynst erfitt fyrir Pírata að mynda ríkisstjórn og stjórna landinu þar sem flokkurinn sé fámennur og eigi enn eftir að fullmóta stefnu í mörgum málum.
Fyrirtækið segir efnahagsaðstæður á Íslandi almennt góðar, búist sé við kröftugum hagvexti og betri hag ríkissjóðs. Engu að síður séu blikur á lofti vegna afnáms gjaldeyrishafta og hætta sé á að hagkerfið ofhitni.
