Íslenski boltinn

Björgvin Stefánsson í Þrótt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Björgvin Stefánson vonast nú eftir fleiri tækifærum í Pepsi-deildinni.
Björgvin Stefánson vonast nú eftir fleiri tækifærum í Pepsi-deildinni. vísir/valli
Framherjinn Björgvin Stefánsson er genginn í raðir Þróttar á láni frá Haukum en hann hefur verið á láni hjá Val í Pepsi-deildinni hingað til í sumar. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Björgvin, sem var markahæsti leikmaður 1. deildar karla í fyrra með 20 mörk, fékk sárafá tækifæri að Hlíðarenda og kom aðeins við sögu í sex leikjum án þess að skora.

Þessi kraftmikli framherji ætti að vera mikill liðsstyrkur fyrir Þrótt sem er ásamt Fylki búið að skora næstminnst allra liða í deildinni á eftir KR.

Þróttur er sem stendur í tólfta og neðsta sæti með sjö stig eftir tíu umferðir, þremur stigum frá öruggu sæti.

„Ég er fyrst og fremst rosalega ánægður með að vera kominn í Þrótt. Þetta er flott félag og mér líst vel á verkefnið. Hlakka mikið til að spila minn fyrsta leik og get vonandi hjálpað liðinu að ná sínum markmiðum,“ segir Björgvin í tilkynningu frá Þrótturum og þjálfarinn, Gregg Ryder, er í skýjunum.

„Ég er himinlifandi að hafa fengið Björgvin til okkar, enda verið aðdáandi hans sem leikmanns um langt árabil og fylgst náið með honum. Leikstíll Björgvins passar leikskipulagi okkar fullkomlega og sömuleiðis tel ég hann akkúrat rétta manninn fyrir okkar heimspeki og félagsanda,“ segir hann.

Þróttarar eru að missa fimm leikmenn í glugganum en þeir Hilmar Ástþórsson og Aron Ýmir Pétursson eru farnir úr laugardalnum. Þá eru Bretarnir Kabongo Tshimanga, Callum Brittain og Dean Morgan á förum frá félaginu, að því fram kemur í tilkynningu Þróttara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×