Þetta sagði talsmaður Íslamska ríkisins í ræðu í september 2014. Þar hvatti Abu Muhammad al-Adnani einstaklinga í vestrænum ríkjum til að taka upp baráttu Íslamska ríkisins og gera árásir í heimalöndum sínum.
Ekki liggur fyrir af hverju einstaklingurinn sem ók inn í hóp fólks í Nice á vörubíl og myrti minnst 84 gerði árásina né á vegum hverra, en Íslamska ríkið liggur sterklega undir grun.
Sjá einnig: Allt um ódæðið í Nice
Sama ár var einnig kallað eftir árásum sem þessum í Frakklandi, þar sem frönskumælandi vígamenn hvöttu stuðningsmenn sína til að gera árásir með bílum og vopnum sem auðvelt væri að nálgast.
„Vopn og bílar eru aðgengileg og einnig skotmörk sem auðvelt er að ráðast á. Drepið þá, hrækið framan í þá og keyrið yfir þá á bílum ykkar.“
„Hugmyndin er að nota pallbíla eins og sláttuvél. Ekki til að slá gras, heldur til að höggva niður óvini Allah.“
Bílar, og þá sérstaklega trukkar eða vörubílar, hafa lengi verið notaðir til hryðjuverkaárása. Yfirleitt hafa þeir þó verið sprengdir í loft upp nærri skotmörkum hryðjuverkamanna, en ekki notaðir til að keyra hópa fólks niður. Erfitt er að koma í veg fyrir árásir sem slíkar og hafa vígahópar kallað eftir þeim á undanförnum árum og mánuðum.
Nokkrar slíkar árásir hafa verið gerðar en mannfallið hefur ekki verið mikið. Fyrr en nú.
Í samtali við Wall Street Journal segja sérfræðingar að árásin í Nice eigi líklegast eftir að draga dilk á eftir sér fyrir öryggisstofnanir. Líklegt þykir að aðrir eigi eftir að herma eftir árásinni og það muni leiða til aukinnar öryggisgæslu á stórum viðburðum og takmörkunum á akstri ökutækja nærri slíkum viðburðum.
Hér að neðan hafa nokkrar árásir þar sem bifreiðar hafa verið notaðar teknar saman.
26. febrúar 1993 New York
Hryðjuverkamenn sprengdu upp vörubíl í kjallara norðurturns World Trade Center. Sex manns dóu en meira en þúsund særðust.
19. apríl 1995 Oklahomaborg
Timothy McVeigh lagði leigðum trukki fyrir framan opinbera byggingu í borginni, en hann hafði komið miklu magni af sprengiefnum fyrir í bílnum. Í sprengingunni létust 168 manns og meira en 500 manns særðust.
3. mars 2006 Norður Karólína
Maður leigði jeppa sérstaklega til þess að aka yfir fólk. Hann ók á níu manns við háskóla í Chapel Hill en enginn lét lífið né særðist alvarlega.
8. júní 2008 Tokyo
Maður keyrði trukki eftir vinsælli verslunargötu og drap þrjá með bíl sínum. Þá stakk hann fjórtán manns en fjórir létust.
15. maí 2011 Tel Aviv
Einn maður dó og 16 slösuðust þegar bíl var ekki á aðra bíla og vegfarendur á fjölfarinni götu. Ökumaður bílsins hélt því fram að um slys hefði verið að ræða.
28. október 2013 Peking
Fimm manns dóu eftir að verða fyrir jeppa í borginni. Yfirvöld sögðu að um hryðjuverkaárás hefði verið að ræða.
20. október 2014 Quebec
Maður sem hafði ferðast til Tyrklands til að reyna að ganga til liðs við Íslamska ríkið keyrði á tvo hermenn. Annar þeirra lét lífið.
Desember 2014 Nantes og Dijon
Í tveimur árásum í tveimur borgum óku menn yfir fólk svo 23 slösuðust. Báðir mennirnir áttu þó við geðræn vandamál að stríða. Annar tók eigið líf en hinn var skotinn til bana af lögreglu.