Inn á völlinn mættu nefnilega fiðrildin í tugþúsundatali og vöktu þau mikla athygli áhorfenda á vellinum og heima fyrir.
„Mér lék forvitni á að komast að því hvaða kvikindi þar ruddust inn á leikvanginn. Snillingurinn Cristiano Ronaldo kom svari við spurningu minni á framfæri við mig þegar hann féll til jarðar skaddaður á hné. Eitt augnablik settist eitt fiðrildanna á kappann og dugði það mér til að greina tegundina,“ skrifar Erling á Facebook-síðu sína. Í samtali við Vísi segist hann óska Ronaldo góðs bata og að hann megi ná sér sem fyrst en hann átti við hnémeiðsli að stríða í leiknum eftir að hann lenti í samstuði við leikmann Frakka.
Gammaygla fjölgar sér á ógnarhraða
Erling segir að ekki sé hægt að tala um mölflugu í þessum skilningi, enska heitið „moth“ sem notað er í erlendum fjölmiðlum sé samheiti fyrir þúsundir tegunda lítilla fiðrilda.
![](https://www.visir.is/i/BE04D681C0C18C04758EFE3369CCCCF68CB41EDCF2C2F8623E4F770EB676E7B2_713x0.jpg)
„Hún á það til að springa svona með látum, hún getur fjölgað sér mikið á skömmum tíma,“ segir Erling. „Tegundin fjölgar sér í Suður-Evrópu eða við Miðjarðarhafið, svo eftir að þessi fjölgun á sér stað fara þær á mikla rás norður eftir álfunni og sjást svo norður eftir öllu, út yfir haf til Færeyja og Íslands. Þær koma oft hingað í gríðarlegum fjölda.“
Erling segist bíða eftir góðri suðaustan átt því að það sé það eina sem til þarf svo að gammayglurnar heimsæki okkur hér á Fróni. Hann segir fiðrildin fara létt með þetta langa ferðalag.
Þannig að það er líklegt að þær komi hingað?
„Já, já þær gera það. Það hefur borið aðeins á þeim undanfarið en ekki í stórum hópum. Þegar hún kemur hingað getur hún svo fjölgað sér en lifir ekki hér að vetri.“
Þriðja liðið mætti á Stade de France
Gammayglan er fremur stór, um tveir sentimetrar að lengd á búknum og með um fjögurra sentimetra vænghaf. Því sást hún vel í sjónvarpinu, svo vel að segja má að þriðja liðið hafi mætt til leiks sem er harla óvenjulegt á Evrópumóti í knattspyrnu þar sem tvö lið leika til úrslita. Áhorfendur, leikmenn og þjálfarar þurftu að banda fiðrildunum frá sér en leikmenn eru vanir að spila við hinar ýmsu aðstæður og létu þriðja liðið því ekki á sig fá.