Bandaríska körfuboltalandsliðið vann stórsigur, 80-45, á Venesúela í æfingaleik í Chicago í nótt.
Leikurinn var liður í undirbúningi liðanna fyrir Ólympíuleikana í Ríó sem verða settir á föstudaginn.
Bandaríska liðið hefur oft spilað betri sóknarleik en í leiknum í nótt en varnarleikurinn var sterkur. Venesúela var aðeins með 24% skotnýtingu og tapaði frákastabaráttunni 54-29.
Kyrie Irving og Klay Thompson voru stigahæstir í liði Bandaríkjanna með 13 stig hvor. Kevin Durant skoraði níu stig og þeir DeAndre Jordan og DeMar DeRozan átta stig hvor.
Bandaríkin mæta Nígeríu í Houston á mánudaginn í síðasta æfingaleik sínum fyrir Ólympíuleikana.
Bandaríska liðið er í riðli með Frakklandi, Venesúela, Serbíu, Kína og Ástralíu á ÓL í Ríó. Fyrsti leikur Bandaríkjamanna er gegn Kínverjum 6. ágúst.
