Tölvuþrjótar hafa komist yfir viðkvæmar upplýsingar um forsetaframboð Hillary Clinton. Tölvuárás var gerð á tölvukerfi Demókrataflokksins í gær og voru upplýsingarnar um Hillary meðal þess sem þeir komu yfir. Þetta kemur fram í frétt frá BBC.
Í yfirlýsingu frá bandarískum yfirvöldum segir að þau telji að netárásin hafi verið gerð að beiðni rússnesku leyniþjónustunnar. Yfirvöld í Kremlin harðneita hins vegar að hafa átt þátt í henni og vísa ummælunum aftur heim til Washington.
Þetta er ekki fyrsta árásin sem gerð hefur verið á tölvukerfi Demókrata. Í síðustu viku láku tölvuþrjótar gögnum sem sýndu fram á að hluti starfsmanna flokksins voru hlutdrægir í forvali flokksins. Gögnin leiddu til þess að Debbie Wassermann Schultz þurfti að segja af sér sem formaður flokksins.
Í yfirlýsingu frá Demókrataflokknum kemur fram að verið sé að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að sambærileg atvik geti ekki átt sér stað á ný.
Önnur tölvuárás gerð á kerfi Demókrataflokksins

Tengdar fréttir

Trump hvetur Rússa til að leka tölvupóstum Hillary Clinton
Wikileaks hefur einnig birt tugþúsundir tölvupósta frá Hillary Clinton.

Hillary Clinton formlega orðin forsetaframbjóðandi demókrata
Landsfundur demókrata í Bandaríkjunum fór fram í vikunni. Hillary Clinton var formlega útnefnd til forsetaframboðs með varaforsetaefnið Tim Kaine sér við hlið. Stuðningsmenn Bernies Sanders létu í sér heyra.