Króatinn Mario Tadejevic verður áfram í herbúðum Fjölnis næstu tvö árin hið minnsta en hann hefur gert nýjan samning við félagið. Þetta kom fram í tilkynningu frá Fjölni.
Tadejevic er 26 ára vinstri bakvörður sem kom til Fjölnis fyrir tímabilið frá Krk í heimalandinu. Hann hefur einnig spilað í Bosníu og Ungverjalandi á ferlinum.
Hann hefur spilað í öllum fimmtán deildarleikjum Fjölnis í sumar en liðið er í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig, fimm stigum á eftir toppliði FH.
Fjölnir mætir næst Víkingi Ólafsvík á útivelli á sunnudag kl. 18.00.
