Karlalandsliðið í körfubolta hefur leik í undankeppni EuroBasket 2017 þann 31. ágúst næstkomandi er Sviss kemur í heimsókn.
Búið var að ákveða að heimaleikir landsliðsins færu fram í Smáranum en nú er búið að færa leikina og verða þeir í þjóðarleikvangnum, Laugardalshöll.
Ástæðan fyrir þessu er að viðburður sem var bókaður í Laugardalshöll í lok mánaðarins verður ekki.
„Laugardalshöllin er heimavöllur landsliða okkar og því var tekin ákvörðun eftir viðræður við alla sem að málinu komu að landsleikirnir fari fram í Laugardalshöll. KKÍ þakkar forsvarsmönnum Breiðabliks og Kópavogsbæjar fyrir þann mikla velvilja sem landsliðum okkar var sýndur með því að bjóða fram Smárann sem leikstað. Jafnframt vill KKÍ koma á framfæri þakklæti til Reykjavíkurborgar, ÍBR og Laugardalshallar fyrir að leysa málin á þann hátt að strákarnir okkar geti spilað á heimavellinum okkar,“ segir í yfirlýsingu frá KKÍ.

