Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir munu leiða lista Vinstri grænna í Reykjavík ef tillaga uppstillingarnefndar verður samþykkt á félagsfundi á mánudag.
Samkvæmt heimildum Vísis og Eyjunnar, sem greindi fyrst frá tillögu uppstillingarnefndar í dag, munu Steinunn Þóra Árnadóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé verma önnur sætin í Reykjavík. Steinunn Þóra í Reykjavíkurkjördæmi norður á eftir Katrínu, en Kolbeinn í Reykjavíkurkjördæmi suður á eftir Svandísi.
Katrín og Svandís leiddu báðar listana í Reykjavíkurkjördæmunum fyrir síðustu kosningar. Steinunn Þóra Árnadóttir tók við þingsæti Árna Þórs Sigurðssonar í ágúst 2014. Kolbeinn leiddi lista flokksins í Suðurkjördæmi fyrir Alþingiskosningar 2003 en náði þá ekki kjöri á þing.
Uppstillingarnefnd flokksins hefur verið að störfum frá í júlí, og því er um tveggja mánaða vinnu að ræða sem kynnt verður á félagsfundi á mánudaginn 12. september.
