Fótbolti

Breyta nafni heimavallarins í höfuðið á stuðningsmanni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stuðningsmenn Darmstadt heiðra minningu Heimes eftir að hann lést í mars.
Stuðningsmenn Darmstadt heiðra minningu Heimes eftir að hann lést í mars. vísir/getty
Þýska úrvalsdeildarliðið SV Darmstadt 98 hefur ákveðið að heiðra minningu eins harðasta stuðningsmanns félagsins með því að nefna heimavöll félagsins í höfuðið á honum.

Jonathan Heimes lést í mars síðastliðnum en hann var aðeins 26 ára gamall. Hann tapaði þá erfiðri glímu við krabbamein.

Áður en Heimes lést var hann duglegur að láta gott af sér leiða og safnaði milljónum fyrir góðgerðarsamtök.

Heimavöllur félagsins hefur hingað til heitið Merck-Stadion en mun út þessa leiktíð heita Jonathan-Heimes Stadion.

„Allir sem þekkja félagið þekkja Jonathan,“ sagði fyrirliði liðsins, Aytac Sulu.

Fyrir þrem árum síðan var Darmstadt í þriðju deildinni en náði 14. sæti í úrvalsdeildinni í fyrra. Ótrúlegur uppgangur.

„Jonathan á mikinn þátt í þessum uppgangi. Þrátt fyrir öll sín veikindi gaf hann félaginu og liðinu mikinn kraft,“ sagði Rudiger Fritsch, forseti félagsins.

Á laugardag tekur Darmstadt á móti Frankfurt og þá verður í fyrsta skipti leikið á Jonathan-Heimes Stadion.

vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×