Fótbolti

Aron Einar hætti í miðju viðtali: Kallað á lækni í búningsklefa Íslands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar í leiknum í kvöld.
Aron Einar í leiknum í kvöld. Vísir/EPA
Óvenjuleg uppákoma átti sér stað í viðtali við Aron Einar Gunnarsson á Rúv eftir landsleik Úkraínu og Íslands í kvöld.

Aron Einar var í viðtali við Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamann, þegar hann hætti skyndilega og beindi sjónum sínum að einhverju sem var að gerast við búningsklefa Íslands.

„Paramedics,“ heyrðist þá kallað í bakgrunni en þá var verið að kalla á aðstoð læknis eftir uppákomu í búningsklefa Íslands.

„Alfreð, hvað er að?“ kallaði Aron Einar á markaskorara Íslands í leiknum en viðtalið hélt svo áfram stuttu síðar. Allt gerðist þetta í beinni útsendingu.

Samkvæmt upplýsingum Vísis þá amaði ekkert að Alfreð heldur var verið að kalla á lækni inn í búningsklefa íslenska liðsins. Aron Einar kallaði á Alfreð þar sem að hann stóð nær klefanum og fylgdist með hvað var í gangi.

Óskar Örn Guðbrandsson, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, staðfesti við Vísi eftir leik að læknir hafi verið kallaður til vegna Ara Freys Skúlasonar, sem hafði farið meiddur af velli í leiknum. Hann tók þó skýrt fram að það amaði ekkert að Ara Frey og að uppákoman hafi ekki verið jafn alvarleg og það leit út fyrir að vera í áðurnefndu viðtali.

Fótbolti.net sagði í frétt sinni um málið að það hefði liðið yfir Ara Frey í búningsklefa Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×