Skoðun

Velferðinni ógnað

Ólína Þorvarðardóttir skrifar

Fyrr á árinu skrifuðu 90 þúsund manns undir áskorun til stjórnvalda um endurreisn heil­brigðis­kerfisins. Var þess krafist að árlega yrði varið sem nemur 11% af vergri landsframleiðslu til heil­brigðis­mála. Augljóst má vera af þeirri 5 ára fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir Alþingi að núverandi stjórnvöld ætla að daufheyrast við ákalli landsmanna.

Á næsta ári vantar samkvæmt þessari áætlun 3 milljarða til þess að halda rekstri Landspítala og sjúkrahússins á Akureyri í horfinu. Er þá ekki tekið með í reikninginn það sem þarf til að bæta reksturinn.

Ríkisfjármálaáætlun er stefnumarkandi plagg – nokkurs konar rammi utan um fjárlög ríkisins og hagstjórnina á næstu fimm árum. Er skemmst frá því að segja að þegar kemur að velferðarmálum stangast fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í öllum helstu atriðum á við sýn okkar jafnaðarmanna á hlutverk ríkisins gagnvart almenningi.

Ekki er gert ráð fyrir því í fjármálaáætluninni að lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja hækki á næstu fimm árum. Samfylkingin hefur lagt til að lágmarksgreiðslan verði hækkuð í 300 þúsund.

Færri fá barnabætur en nokkru sinni fyrr samkvæmt fjármálaáætluninni og eru það aðeins þeir allra tekjulægstu. Við jafnaðarmenn lítum ekki á barnabætur sem fátækrastyrk, heldur sjálfsagðan stuðning við allar fjölskyldur eins og tíðkast á Norðurlöndum. Þar eru barnabætur ótekjutengdar enda hugsaðar til að jafna stöðu barnafjölskyldna gagnvart barnlausu fólki.

Engar áætlanir er að sjá í ríkisfjármálaáætlun um lengingu fæðingarorlofsins þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda þar um. Samfylkingin hefur lagt til fæðingarorlof í 12 mánuði og að hámarksgreiðslur séu hækkaðar.

Svo virðist sem ríkisstjórnin leggi allt kapp á að lækka skuldir þeirra sem mest hafa milli handanna og því mun þeim fækka enn frekar sem fá vaxtabætur næstu 5 árin. Jafnaðarmenn leggja áherslu á að allir eigi þess kost að eignast heimili eða leigja heimili á viðunandi kjörum.

Nái áætlun ríkisstjórnarinnar fram að ganga mun það bitna mjög á velferð í landinu. Gælur við einkavæðingaráform í heilbrigðiskerfinu hringja öllum viðvörunarbjöllum og stangast á við áherslur jafnaðarmanna og ákall almennings um endurreisn heilbrigðiskerfisins, að ekki sé minnst á markmið jafnaðarmanna um gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu.

Í velferðarsamfélagi á sjúkt fólk að fá bestu mögulegu læknaþjónustu og umönnun sem völ er á. Áform um einkarekstur eru ekki svar við því kalli, heldur flótti frá verkefninu.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×