Hópur sem kallar sig Fancy Bears lýsti sig ábyrgan fyrir árásinni en rússnesku tölvuþrjótarnir brutust inn í gagnabanka Wada, Alþjóðalyfjaeftirlitsins, og stálu þaðan trúnaðarupplýsingum um bandarískt íþróttafólk.
Talið er að árásin á gagnabanka Wada sé eins konar hefndaraðgerð fyrir svarta skýrslu Wada um stórfellda og skipulagða lyfjamisnotkun í Rússlandi. Í kjölfarið var rússnesku frjálsíþróttafólki meinuð þátttaka á Ólympíuleikunum í Ríó.
Í yfirlýsingu frá Fancy Bears kemur fram að fjölmargir bandarískir íþróttamenn hafi notað lyf sem eru á bannlistum, og fengið leyfi til þess frá læknum.
Fimleikadrottningin Simone Biles, sem vann til fernra gullverðlauna í Ríó í síðasta mánuði, var ein þeirra sem varð fyrir barðinu á tölvuþrjótunum en þeir sökuðu hana um að taka ólögleg geðlyf.
Biles greindi frá því á Twitter í kvöld að hún væri með ADHD, tæki inn lyf við því og hefði alltaf farið eftir settum reglum.
pic.twitter.com/tPxCJ1K2RZTrúnaðarupplýsingum um tennissysturnar, Serena og Venus Williams, og körfuboltakonan Elena Delle Donne var einnig lekið á netið.
— Simone Biles (@Simone_Biles) September 13, 2016
Talsmaður rússneskra yfirvalda, Dmitry Peskov, þvertók í dag fyrir það að yfirvöld eða leyniþjónustan í Rússlandi hefði eitthvað með árásina að gera.
Wada og Alþjóðaólympíunefndin hafa fordæmt árásina en Wada segir að tilgangurinn með henni sé að grafa undan stofnuninni.