Eina mark leiksins gerði Alex Freyr Hilmarsson í fyrri hálfleiknum. FH-ingar fengu fín færi í leiknum en nýttu þau ekki.
Af hverju vann Víkingur ?
Víkingar nýttu færið sitt. Bæði lið fengu heilan helling af færum en nýttu þau ekki nægilega vel. Víkingar hefði getað skorað fleiri mörk og FH-ingar fengu urmul af færum en þeir vildu bara ekki setja boltann í netið. Róbert Örn Óskarsson, fyrrum markvörður FH, reyndist sínu gömlu félögum erfiður og varði hvað eftir annað meistaralega.
Hverjir stóðu upp úr ?
Markverðirnir báðir voru mjög góðir í kvöld. Sérstaklega Róbert Örn Óskarsson hjá Víkingum. Hann á þennan sigur nánast. Gunnar var flottur í marki FH-inga og Alex Freyr Hilmarsson gerði mjög vel í markinu sem Víkingar skoruðu.
Hvað gekk vel ?
Samspil leikmanna beggja liða var í raun nokkuð gott. Bæði lið voru að skapa sér færi en það gekk ekki nægilega vel að setja punktinn yfir i-ið.
Hvað gerist næst ?
FH-ingar fá Eyjamenn í heimsókn og taka þá á móti Íslandsmeistaratitlinum í Kaplakrika. Víkingar mæta föllnum Þrótturum.
Milos: Væri frábært ef Róbert væri alltaf svona

„Það er í raun ótrúlegt að þessi leikur endaði 1-0, hann hefði átt að fara svona 7-4 en markverðir beggja liða voru hreint ótrúlegir í dag. Þetta var samt góður leikur hjá okkur og við áttum mjög fína spilakafla.“
Milos segir að það sé margt í liði Víkings sem sé hægt að byggja ofan á og vera ánægðir með. Róbert Örn var frábær í marki Víkings í dag.
„Hann á mikið í þessum sigri. Hann var frábær í dag og frábær í leiknum á móti KR. Ég vildi helst hafa hann alltaf svona. Við þurfum núna bara að finna innri áhugahvöt hjá okkur til að klára alla leiki. Í sumar höfum við unnið lið sem eru í efri hluta deildarinnar, en einnig tapað fyrir liðum í þeim neðri. Okkur vantar stöðuleika.“
Heimir: Viljum enda þetta tímabil með stæl

„Það var mikið um marktækifæri en markverðirnir í báðum liðum voru mjög góðir. Það virkaði þannig á mig að þegar komið var í leikinn að það hafi verið erfitt fyrir strákana að gíra sig upp í þennan leik. Varnarlega voru við ólíkir sjálfum okkur og við slitnuðum of mikið í sundur.“
FH náði að skapa sér fullt af færum en boltinn vildi ekki inn.
„Við fengum nóg af marktækifærum en Robbi var rosalega góður í markinu og við náðum ekki að nýta færin nægilega vel.“
FH mætir ÍBV í lokaumferðinni.
„Við viljum klára tímabilið með stæl og fáum bikarinn afhendan á laugardaginn næsta. Ég get ekki ímyndað mér að það sé gaman fyrir strákana að taka á móti bikarnum og tapa.“