Könnunin var gerð á þriðjudagskvöld og á mánudagskvöld.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti stjórnmálaflokkurinn, með 23,7 prósenta fylgi, sem er prósentustigi meira en þeir fengu í skoðanakönnun fyrir viku. Píratar eru næststærstir með 20,7 prósenta fylgi, sem er rúmum tveimur prósentustigum minna en þeir fengu í síðustu könnun. Munur á fylgi Sjálfstæðisflokksins og Pírata milli vikna er innan skekkjumarka. Vinstri græn bæta aftur á móti við sig fylgi. Þeir fara úr 15,1 prósenti í 19,2 prósent.
Framsóknarflokkurinn fengi 8,5 prósent, Björt framtíð 7,4 prósent, Viðreisn 6,6 prósent og Samfylkingin fengi, sem fyrr segir 6,5 prósent. Þetta er þriðja vikan í röð þar sem niðurstöður benda til þess að sjö þingflokkar yrðu starfandi á Alþingi eftir kosningar. Oddný segir að það kunni að flækja stjórnarmyndunarviðræður ef úrslitin yrðu þessi. „En við erum með marga flokka sem eru með svipaðar áherslur og ættum að geta talað saman,“ segir Oddný.

„Kjörorðið hennar Ingu er bjartsýni og bros bjargar deginum,“ segir Inga Sæland formaður Flokks fólksins, spurð að því hvort hún sé farin að gera sér vonir um sæti. Hún segir framhaldið á valdi kjósenda.
„Ef þeir vilja mig þá er ég hér og ég er alltaf full af von. Það er nú þannig.“
Könnun Fréttablaðsins var gerð þannig að hringt var í 1.303 manns dagana 17. og 18. október þar til náðist í 801 samkvæmt lagskiptu slembiúrtaki. Svarhlutfallið var því 61,5 prósent.
Alls tóku 68,0 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar, 15,7 prósent sögðust óákveðin í því hvað þau ætluðu að kjósa, rúm 5,7 prósent sögðust ekki ætla að kjósa eða ætla að skila auðu en tæp 10,6 prósent neituðu að gefa upp afstöðu sína.