„Það er oft alveg jafn erfitt að stýra þegar það gengur vel og þegar það gengur illa. Það eru bara svo margar freistingar til staðar að vera að ausa peningum í hitt og þetta. En við megum ekki gleyma því að við erum alveg stórskuldug og stór útgjaldaliður ríkissjóðs eru vaxtagreiðslur. Það væri því mjög óábyrgt gagnvart komandi kynslóðum að halda ekki áfram að taka á því. Þannig að ég myndi segja að áskorunin væri að huga að því sérstaklega að halda áfram að lækka skuldir og ekki bara að hugsa um hvar við getum haldið áfram að auka útgjöld,“ segir Anna Hrefna.
„Það er ekkert ókeypis þar sem það er alltaf einhver sem borgar. Þetta er auðvitað bara allt mismundandi stefna sem fer eftir því að hversu mikið maður aðhyllist að velferðarkerfið eigi allt að vera ókeypis en þá borgar þú bara fyrir það í gegnum þína skatta. Svo eru aðrir sem vilja frekar hafa lægri skatta og þá veita þeim aðstoð sem á þurfa að halda,“ segir Anna Hrefna.
Guðmundur tekur undir að það verði stórmál fyrir næstu ríkisstjórn að standast freistingar þegar kemur að ríkisútgjöldum, einmitt þegar uppgangur er í hagkerfinu.
„Vandi íslensks hagkerfis er óstöðugleiki. Það er þessi eilífðarvandi sem stjórnvöld eru að glíma við að þetta er lítið hagkerfi og það þarf lítið til þess að setja það á hliðina. Það hefur stjórnmálamönnum tekist afskaplega vel í gegnum tíðina og oft á tíðum vegna ofeyðslu á uppgangstímum. Það er eitt af því sem veldur spennu verðbólgu og öðru slíku. Að varast þær freistingar verður stórmál,“ segir Guðmundur.