Erlent

Afríkuríki úr dómstóli

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hluti dómara við Alþjóðasakadómstólinn í Haag.
Hluti dómara við Alþjóðasakadómstólinn í Haag. vísir/epa
Gambía hefur nú, ásamt Suður-Afríku og Búrúndí, boðað úrsögn úr Alþjóðasakadómstólnum, sem er stríðsglæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna í Haag.

Ríkin þrjú saka dómstólinn um að beina kröftum sínum einkum að Afríku en láta aðra heimshluta í friði.

„Mörg vestræn ríki, að minnsta kosti þrjátíu, hafa framið svívirðilega stríðsglæpi gegn sjálfstæðum fullvalda ríkjum og borgurum þeirra frá því Alþjóðasakadómstóllinn tók til starfa, en ekki einn einasti stríðsglæpamaður frá Vesturlöndum hefur verið ákærður,“ sagði Sheriff Bojang, upplýsingamálaráðherra Gambíu.

Gambía hefur reynt að fá dómstólinn til að draga vestræna ráðamenn til ábyrgðar vegna flóttamanna sem drukknað hafa í Miðjarðarhafi.

Namibía og Kenía hafa einnig sagt að úrsögn komi til greina.

Flest ríki heims eiga aðild að dómstólnum, en meðal undantekninga frá því má nefna Bandaríkin, Rússland, Kína og Indland. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×