Milli 800 og 900 liðsmenn hryðjuverkasamtakanna ISIS hafa verið drepnir frá því að írakskar öryggissveitir og bandamenn þeirra hófu sókn sína að stórborginni Mosúl í síðustu viku.
Frá þessu greinir bandaríski hershöfðinginn Joseph Votel. Segir hann að erfitt sé að gefa nákvæm svör þar sem liðsmenn ISIS séu á stöðugri ferð um borgina og í felum meðal almennra borgara.
Fyrirfram var áætlað að um fimm þúsund ISIS-liðar væru í Mosúl þegar sóknin hófst. Búið er að ná tökum á fjölda smærri bæja og úthverfa Mosúl og búast bandamenn við aukinni mótstöðu þegar þeir nálgast miðborgina.
Írakskar öryggissveitir njóta aðstoðar Bandaríkjahers í sókninni. Talið er að margar vikur og jafnvel mánuði muni taka þar til búið verður að hrekja síðustu ISIS-liðana úr borginni.
Um 50 þúsund manns taka þátt í sameiginlegri hernaðaraðgerð írakskra öryggissveita, Kúrda og annarra hersveita gegn ISIS.
Írakska ríkisstjórnin hefur greint frá því að 57 írakskir hermenn hafi fallið og 250 særst frá því að sóknin hófst. Þá er talið að milli tuttugu og þrjátíu hermenn Kúrda hafi látið lífið.
