Frönsk yfirvöld munu byrja á því að ryðja búðir flóttamanna í hafnarborginni Calais, sem jafnan ganga undir nafninu Frumskógurinn, á mánudag eftir helgi.
Áætlað er að um sjö þúsund flóttamenn dvelji nú í búðunum við afar slæmar aðstæður. Þeim sem þar dvelja verður boðin aðstaða á heimilum fyrir flóttafólk á öðrum stöðum í Frakklandi, meðal annars í höfuðborginni París.
Flestir þeir flóttamenn sem hafa dvalið í búðunum í Calais stefna að því að komast til Bretlands um Ermarsundsgöngin og hafa margir reynt að smygla sér um borð í vörubíla sem sé stefnt til Bretlands um göngin.
BBC greinir frá því að sextíu rútur verði notaðar til að flytja flóttamennina frá Calais og til heimila fyrir flóttafólk annars staðar í landinu.
Talsmaður innanríkisráðuneytis landsins segir að yfirvöld verði með mikinn viðbúnað þegar byrjað verður að taka niður tjöldin og skýlin á mánudag, enda eigi þau von á að til átaka geti komið.

